Tix.is

Event info

Kór Langholtskirkju, kammersveit Langholtskirkju og einvalalið einsöngvara flytur eitt
þekktasta og glæsilegasta verk kórbókmenntanna, Jóhannesarpassíuna eftir Johann
Sebastian Bach á 300 ára afmælisári verksins.


Í verkinu tónsetur Bach frásögnina af síðustu stundum píslarsögu Krists eins og hún er sögð í
guðspjalli Jóhannesar, frá handtöku hans, yfirheyrslu, krossfestingu og loks dauða.

Guðspjallamaður leiðir áheyrendur í gegnum hina sígildu frásögn af samskiptum Krists og
Pílatusar og eftirmálum þeirra, sem leifturkórar þrungnir spennu og dramatík brjóta upp í
bland við kórala og aríur, sem veita hvíld frá píslarsögunni og vekja áheyrendur til
umhugsunar um frásögnina.


Einsöngvarar eru Benedikt Kristjánsson, tenór, í hlutverki guðspjallamanns, Fjölnir Ólafsson,
barítón, í hlutverki Krists, Ólafur Freyr Birkisson, bassi, í hlutverki Pílatusar, Hildigunnur
Einarsdóttir, mezzósópran, og Jóna G. Kolbrúnardóttir, sópran. Páll Palomares fer fyrir
kammersveit Langholtskirkju og flutningnum stýrir Magnús Ragnarsson.


Kór Langholtskirkju flutti verkið fyrst árið 1984 og flytur það nú í níunda sinn.


Almennt miðaverð er 4.900 kr., en 3.900 kr. fyrir öryrkja, eldri borgara, námsmenn og 18 ára
og yngri.
Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkurborgar styrkir flutninginn.