Tix.is

Event info
Geigengeist er nýtt verk eftir teknófiðludúóið Geigen. Verkið er unnið í samstarfi við Íslenska
dansflokkinn, Tönju Huld Levý búningahönnuð og Sean Patrick O’Brien listamann.
Á fjarlægum stað mætumst við á einu andartaki í gegnum samhljóm fiðlunnar. Í þessari fiðlulaga vídd
víbrar andrúmsloftið og umhverfið umbreytist stöðugt við taktfastan hjartslátt teknótónlistarinnar.
Lífverurnar hér eru samtengdar þeim öflum sem eru að verki og hrífa gesti með í heim líkamlegrar
tjáningar.


Geigengeist er upplifunarveisla, þar sem dans, tónlist, hönnun og myndlist koma saman undir
formerkjum dansklúbbsins. Klúbburinn er geimræn fiðluveröld sem áhorfandinn gengur inn í, ferðast
um og tekur þátt í. Hér mætist fortíð, framtíð og nútíð í veldislausu og frjálsu rými sem táknmynd
sameiningar og samstöðu sem og einstaklingsfrelsis. Þannig er verkið tillaga að
framtíðar-samfélagsanda.


Teknófiðludúóið Geigen samanstendur af tónskáldinu Pétri Eggertssyni og danshöfundinum og
listakonunni Gígju Jónsdóttur. Þau stofnuðu Geigen í San Francisco haustið 2018 og hafa síðan í
ársbyrjun 2019 staðið fyrir tónleikaupplifunum Geigen Galaxies sem hafa m.a. verið sýndar á
Reykjavík Dance Festival/Vorblótinu, á listahátíðinni LungA á Seyðisfirði, nýmiðlahátíðinni Raflost og
barnatónlistarhátíðinni Big Bang. Geigen er uppreisn gegn hinni klassísku birtingarmynd fiðlunnar,
þráin til að þess að brjótast út úr hefðbundnum strúktúr, upphafning fiðlunnar og tilraun til þess að
færa hana inn í framtíðina og nota hana sem sameiningarafl þvert á listgreinar.


Verkið er styrkt af Sviðslistarráði og var valið samstarfsverkefni Íslenska dansflokksins
veturinn 2022 – 2023.


Geigengeist verður frumsýnt 11. nóvember, 2022 á Litla sviði Borgarleikhússins.


Reykjavík Dance Festival / Reykjavik Dance Festival / RDF