Tix.is

Event info

Söngkonan Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir og klassískri gítarleikarinn Francisco Javier Jáuregui flytja ástsæl sönglög eftir Atla Heimi Sveinsson, Jón Ásgeirsson, Jón Nordal, Huga Guðmundsson, Hauk Tómasson og Sigfús Halldórsson í bland við íslensk þjóðlög í útsetningum gítarleikarans sjálfs. 

Þau Guðrún og Javier eru þekkt fyrir að skapa mikla nánd við áhorfendur, innlifun, frumlegt efnisval, tilfinninganæma túlkun og áhugaverðar kynningar, sem færa hlustendur inn í heim hvers lags fyrir sig. Guðrún og Javier komu fyrst fram saman árið 2002 í Guildhall School of Music and Drama í London, þaðan sem þau luku bæði mastersgráðum í tónlist. Síðan þá hafa þau komið reglulega fram í fjölmörgum tónleikasölum og á tónlistarhátíðum víðs vegar í Evrópu, Bandaríkjunum og Afríku. 

Þau hafa tekið upp þrjá geisladiska: Mitt er þitt – íslensk og spænsk sönglög (12 tónar), English and Scottish Romantic Songs for voice and guitar (EMEC Discos) og Secretos Quiero Descubrir (Abu Records). Upptökur þeirra má einnig heyra á diskunum Inspired by Harpa, Icelandic Folksongs and Other Favorites, Kom skapari (12 tónar) og Awake (Orpheus Classical). 

Hjónin Guðrún og Javier eru stofnendur og stjórnendur Sönghátíðar í Hafnarborg. Þau fluttu til Íslands árið 2020. www.duoatlantica.com