Tix.is

Event info

HAM – á Tónaflugi í Egilsbúð Neskaupstað 3. júlí 2021 - Særum sóttina burt 

Frumrokksveit Íslands, hin goðsagnakennda HAM, rís úr dásvefni sóttarinnar þann 3. júlí á herrans árinu 2021. Sveitin hyggst framhalda boðun ófagnaðarerindis sins og útdeila sínum djúpfögru og hughreystandi tónum og hljómum sem aldrei fyrr. Rokkhöllin Egilsbúð í Neskaupstað varð fyrir valinu sem vettvangur upprisunnar. Það mun enginn ósnortin verða sem dýft hefir sér í beljandi hreinsunarbál rokksveitarinnar geðþekku.

Í ríflega 30 ár hefir rokksveitin HAM túlkað frumkrafta norðursins í tónlistarsköpun sinni. Sveitin hefur gefið út fjölda platna og leikið á goðsagnakenndum tónleikum um víðan heim. HAM hefur og samið tónlist fyrir kvikmyndir og myndlistasýningar, nú síðast fyrir „Chromo Sapiens“ sýningu Hrafnhildar Arnardóttur sem sló í gegn á tvíæringnum í Feneyjum 2019 sem stundum er lýst sem heimsmeistaramótinu í myndlist.

Hvergi skín stjarna HAM þó skærar en á sviði en sveitin þykir einhver albesta rokksveit norðurhvels jarðar, og þótt víðar væri leitað. Vænta má að uppsafnað rokk HAM úr egypsku myrkri sóttarinnar eigi eftir að springa eftirminnilega út í rokkhöll Austfirðinga í Egilsbúð.

Öllum unnendum góðrar tónlistar, beljandi hljómfalls og rokksvita er beinlínis nauðsyn að koma á þennan einstaka viðburð. Ekkert er hollara en að lauga sig í endurnærandi frumgargi sannleikans. Það má fullyrða að enginn fer ósnortinn frá þessum einstaka viðburði.

HAM er heiður að því að stíga á eitt helsta rokksvið landsins og spila fyrir fjöllin og fjörðinn og allt þar á milli.

Komið og kveðjið sóttina með rokktröllunum í HAM. Allir (yfir 18 aldri) velkomnir. Missið ekki af tækifæri ársins að bera rokkjötna augum auk þess sem það er sönn ánægja að tilkynna það að rokksveitin Blóðmör mun hita upp. Innblásin af gamla íslenska pönkinu sigraði Blóðmör Músíktilraunir 2019 og síðan þá hefur sveitin sent frá sér tvær fantagóðar plötur og rokkar ávallt af sál og af líkama.

Tónleikarnir eru hluti af Tónaflugi í Neskaupstað sem er samstarfsverkefni SÚN, Menningarstofu Fjarðabyggðar, Beituskúrsins og Tónlistarmiðstöðvar Austurlands