Tix.is

Event info

Einir vinsælustu tónleikar Rigg viðburða verða settir upp í Eldborg laugardagskvöldið 13. mars kl. 20:00 en þeir hafa hlotið einróma lof undanfarin ár.
Einstök stund sem unnendur Vilhjálms Vilhjálmssonar mega ekki missa af. Frábær skemmtun fyrir unga sem aldna!

Friðrik Ómar syngur lög Vilhjálms ásamt hljómsveit undir stjórn Jóns Ólafssonar píanóleikara.
Friðrik hóf ungur að árum að syngja lög Vilhjálms. Björt og fögur söngröddin minnir óneitanlega á áferð raddar Vilhjálms og ekki síður skýrmælgin sem einkenndi söng Vilhjálms. Á þessum glæsilegu tónleikum mun Friðrik flytja lögin sem lifa með þjóðinni sem Vilhjálmur söng á sínum ferli ásamt færustu hljóðfæraleikurum þjóðarinnar. Hljómsveitarstjóri og píanóleikari er enginn annar en Jón Ólafsson en hann skrifaði ævisögu Vilhjálms sem kom út árið 2008. Sérstakur gestur er Katrín Halldóra Sigurðardóttir sem sló svo rækilega í gegn í hlutverki Ellýjar, systir Vilhjálms, í Borgarleikhúsinu. Útsetningar eru í höndum Karls Olgeirssonar.

Stutt ágrip um Vilhjálm Vilhjálmsson
Vilhjálmur Hólmar Vilhjálmsson fæddist í Merkinesi í Höfnum á Suðurnesjunum. Fólk man ljúfa tenórrödd þessa ástsæla dægurlagasöngvara og það sem meira er, ungt fólk sem fætt er löngu eftir fráfall Vilhjálms dáir lögin sem hann gerði að sínum með persónulegum og áreynslulausum söngstíl.
Vilhjálmur ætlaði aldrei að verða dægurlagasöngvari. Stefnan var sett á háskólanám. En enginn má sköpum renna. Fyrstu skrefin á söngbrautinni voru stigin í menntaskólanum á Akureyri. Síðan tóku við sigrar með hljómsveitum Ingimars Eydals og Magnúsar Ingimarssonar. Þá urðu plöturnar vinsælar sem Vilhjálmur söng inn á ýmist einn eða með Elly systur sinni. Mörg lög lifa enn í minningunni hátt í fimmtíu árum eftir að þau komu út, svo sem Lítill drengur, Við eigum samleið og Bíddu pabbi svo að örfá séu nefnd.

Framleiðandi: Rigg viðburðir