Tix.is

Event info

Tangóseptettinn Le Grand Tango hefur það að markmiði að flytja fjölbreytta tangótónlist, allt frá danstónlist til kammerverka. Sveitin kom upphaflega saman í kringum bandoneonleikarann og tónskáldið Olivier Manoury en ásamt honum leika nokkrir af færustu hljóðfæraleikurum þjóðarinnar og á septettinn sér glæsta sögu. Að þessu sinni slæst hetjutenórinn Stuart Skelton með í för og flutt verða sönglög og stærri kammerverk frá Argentínu og fleiri löndum.

Olivier Manoury hefur allt frá árinu 1979 starfað sem bandoneonleikari með hljómsveitum, söngvurum og tangódönsurum, haldið tónleika og tekið þátt í alþjóðlegum listahátíðum. Auk þess að semja og útsetja tónlist hefur Olivier samið fyrir kvikmyndir, leikhús og ballett. Eftir hann liggja upptökur á fjölmörgum geisladiskum.

Stuart Skelton er einn eftirsóttasti tenórsöngvari samtímans. Hann er einna þekktastur fyrir titilhlutverkið í Peter Grimes, óperu Benjamins Britten, sem gestir Listahátíðar fengu að njóta vorið 2015. Hann hefur einnig sungið fjölda titilhlutverka í óperum Wagners, komið fram í mörgum af helstu óperuhúsum heim seins og Metropolitan, La Scala og Covent Garden, svo fátt sé nefnt, og er tíður gestur á virtum tónlistarhátíðum á borð við BBC Proms.

Tenór: Stuart Skelton
Fiðla: Auður Hafsteinsdóttir
Fiðla: Geirþrúður Ása Guðjónsdóttir
Víóla: Þórunn Ósk Marínósdóttir
Selló: Bryndís Halla Gylfadóttir
Kontrabassi: Richard Korn
Píanó: Edda Erlendsdóttir
Bandoneon: Olivier Manoury