Tix.is

Event info

Það er ókeypis á þennan viðburð en nauðsynlegt er að panta miða.

Söng- og leikkonan Vala Guðna, fiðluleikarinn Matthías Stefánsson og píanóleikarinn Sigurður Helgi flytja lög úr ýmsum áttum og frá mörgum löndum á þessum ókeypis fjölskyldutónleikum.

 

Á tónleikunum taka þátt krakkar á tónlistar- og myndlistarnámskeiði Hafnarborgar og Sönghátíðar í Hafnarborg, undir stjórn Ingibjargar Fríðu Helgadóttur og Sigurðar Inga Einarssonar.

 

Í samræmi við sóttvarnarlög og til að tryggja öryggi tónleikagesta verður takmarkað sætaframboð á tónleikana. Ef tónleikagestur óskar þess að tryggja tveggja metra regluna skal taka það tímanlega fram, með því að senda póst á netfangið hafnarborg@hafnarfjordur.is.

 

Um listamennina:

VALGERÐUR GUÐNADÓTTIR nam við Söngskólann í Reykjavík hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttir og hjá Lauru Sarti við framhaldsdeild Guildhall School of Music and Drama í London. Hún hóf söngferil sinn með hlutverki Maríu í West Side Story í Þjóðleikhúsinu 18 ár gömul. Síðan þá hefur hún sungið og leikið á ólíkum vettvangi, t.d. hja´ Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu og Íslensku Óperunni Valgerður lék hlutverk Maríu í Söngvaseiði í Borgarleikhúsinu og hlaut fyrir það Grímuna, Íslensku leiklistarverðlaunin, sem Söngvari ársins. Valgerður hefur farið með mörg önnur hlutverk á ferlinum, allt frá söngleikjum til óperu eins og t.d. Fantine í Vesalingunum, Lindu í Gauragangi, Janet í Rocky Horror, Papagenu í Töfraflautunni, Mercedes í Carmen og Bertu í Rakaranum frá Sevilla hjá Íslensku Óperunni. Hún hefur í tvíganghlotið tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem söngkona ársins í flokki sígildrar og samtímatónlistar. Valgerður hefur haldið fjölda tónleika og komið víða fram sem einsöngvari hér heima og erlendis m.a. á opnunarhátíð Hörpu 2011, með Óperudraugunum og margsinnis með Sinfóníuhljómsveit Íslands, t.d. á Vínartónleikum og jólatónleikum hljómsveitarinnar 2018. Í febrúar 2018 söng Valgerður Völvuna í Völuspá, nýju tónverki eftir Þorvald Bjarna Þorvaldsson fyrir sinfóníuhljómsveit og kór sem flutt var í Færeyjum og fór í sama mánuði með hlutverk Christine Daaé í The Phantom of the Opera í Eldborgarsal Hörpu en fyrir það hlutverk hlaut hún tilnefningu til Grímunnar 2018. Valgerður leikur um þessar mundir titilhlutverkið í Mömmu klikk!, leikriti eftir samnefndri bók Gunnars Helgasonar en hún var nýverið tilnefnd til Gri´muverðlaunanna fyrir hlutverkið.  

MATTHÍAS STEFÁNSSON nam fiðluleik við Tónlistarskóla Akureyrar frá fimm ára aldri til sextán ára aldurs. Fyrstu tíu árin hjá Lilju Hjaltadóttur og síðasta árið hjá Önnu Podhajska ásamt því að sækja tíma til Guðnýjar Guðmundsdóttur. Matthías tók 7. stig í fiðluleik frá Tónlistarskólanum á Akureyri en lauk svo burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 2002, undir handleiðslu Mark Reedmann ásamt því að stunda nám í gítarleik við Tónlistarskóla F.Í.H.. Matthías hefur verið starfandi tónlistarmaður síðan 2002 ásamt því að kenna á fiðlu og gítar. Hann hefur spilað á yfir 150 geisladiskum og starfað með flestum þekktari tónlistarmönnum Íslands og verið meðlimur í ýmsum hljómsveitum. Hann hefur tekið þátt í fjölda tónleikauppfærslna hjá Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu, Íslensku Óperunni, Íslenska dansflokknum, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Caput og Sinfóníuhljómsveit Íslands.

 

SIGURÐUR HELGI ODDSSON nam píanóleik við Tónlistarskóla Vestur-Húnavatnssýslu á Hvammstanga og Tónlistarskólann á Akureyri. Hann lauk framhaldsprófi vorið 2004 undir handleiðslu dr. Marek Podhajski. Á árunum 2008 til 2011 stundaði hann framhaldsnám í kvikmyndatónlist, djasspíanóleik og hljómsveitarstjórn við Berklee College of Music í Boston. Meðal kennara hans voru hljómsveitarstjórinn dr. Isaiah Jackson og píanóleikararnir Neil Olmstead og Bob Winter. Hann lauk þaðan BM gráðu summa cum laude.

 

Hann hefur starfað jöfnum höndum sem klassískur og rytmískur píanóleikari ásamt því að stjórna kórum, kenna og semja tónlist í frístundum. Hann starfaði um tíma sem píanókennari og meðleikari við Listaskóla Mosfellsbæjar og frá því í febrúar 2018 hefur hann gegnt fullri stöðu sem píanóleikari við Söngskólann í Reykjavík. Í gegnum tíðina hefur hann komið að ýmsum óperu- og söngleikjauppfærslum hjá áhuga- og atvinnuleikfélögum, nú síðast stýrði hann hljómsveit á uppfærslu Söngskólans í Reykjavík á Fiðlaranum á þakinu í febrúar 2020.

 

Samhliða tónlistinni rekur Sigurður Helgi Sveiflustöðina, dansskóla í hjarta Reykjavíkur sem sérhæfir sig í lindy hop og skyldum sveifludönsum. Hann er sömuleiðis stofnandi og aðalskipuleggjandi alþjóðlegu danshátíðarinnar Lindy on Ice sem hefur verið árviss viðburður á Íslandi síðan 2018. Þá kemur hann einnig reglulega fram með eigin hljómsveit sem leikur blöndu af blús- og sveiflutónlist ásamt öðrum tegundum djasstónlistar frá fyrri hluta 20. aldar.        

 

Um Sönghátíð í Hafnarborg:

Sönghátíð í Hafnarborg fer fram dagana 2.-12.7.2020 undir nafninu Samkennd. Þemað er innblásið af sérstöku mikilvægi samkenndar nú þegar faraldur geisar um heiminn og skekur líf fólks. Tónlist og ljóðlist tjá sammannlegar tilfinningar þvert yfir tíma og lönd, hjálpa okkur að skilja okkur sjálf og að setja okkur í spor annarra.

 

Sönghátíð í Hafnarborg er tónlistarhátíð sem hefur það að markmiði að koma klassískri sönglist á framfæri. Á hátíðinni í ár eru átta tónleikar í boði með framúrskarandi söngvurum, sönghópum og hljóðfæraleikurum sem flytja íslenska og erlenda tónlist frá endurreisnartímabilinu til okkar daga. Meðal listamanna eru fjórir söngvarar sem sungið hafa í hinu fræga Metropolitan óperuhúsi. Einnig er boðið upp á master class, söngnámskeið og tónlistarsmiðjur fyrir börn 6 mánaða – 12 ára. Listrænir stjórnendur og stofnendur Sönghátíðar í Hafnarborg eru Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzósópran og Francisco Javier Jáuregui gítarleikari.

 

Á Sönghátíð í Hafnarborg er ekki einungis leitast við að leggja rækt við list augnabliksins, heldur er einnig horft til framtíðar með því að birta á YouTube síðu hátíðarinnar valdar myndbandsupptökur af tónleikum. Þar birtast einnig viðtöl sem Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir tekur við söngvara.

 

www.songhatid.is