Tix.is

Event info

Stórsöngvararnir Dísella Lárusdóttir sópran og Bjarni Thor Kristinsson bassi flytja flytja aríur og
dúetta með Antóníu Hevesi píanóleikara úr ástkærum óperum. Dísella og Bjarni Thor eru á meðal
allra vinsælustu og farsælustu óperusöngvara Íslands. Dísella hefur sungið fjölmörg hlutverk við
Metropolitan óperuhúsið í New York og Bjarni Thor hefur getið sér gott orð á sviðum óperuhúsa í
hæsta gæðaflokki víða um heim. Hér gefst einstakt tækifæri að hlusta á þau í návígi.
Í samræmi við sóttvarnarlög og til að tryggja öryggi tónleikagesta verður takmarkað sætaframboð á
tónleikana. Ef tónleikagestur óskar þess að tryggja tveggja metra regluna skal taka það tímanlega
fram, með því að senda póst á netfangið hafnarborg@hafnarfjordur.is.
Um listamennina:


DÍSELLA LÁRUSDÓTTIR þreytti frumraun sína hjá Metropolitan óperunni í New York í mars 2013 þar
sem hún söng hlutverk Garsendu í óperunni Francesca da Rimini eftir ítalska tónskáldið Riccardo
Zandonai. Síðan þá hefur hún fengið að spreyta sig í mörgum öðrum óperum og óperuuppfærslum á

þessu merka sviði; m.a. sem Woglinde í óperum Richards Wagner, Rheingold og Götterdämmerung,
þjón í Frau Ohne Schatten eftir Richard Strauss, fyrsta skógarálf í Rusalka eftir Antonin Dvorák og Lísu
í La Sonnambula eftir Vincenzo Bellini, Barenu í óperunni Jenufa eftir Leoš Janácek, Papagenu í
Töfraflautunni eftir W.A. Mozart, Blümenmädchen í Parsifal e. Wagner, Gianettu í L’elisir d’Amore e.
Donizetti, Shadow Marnie í Marnie e. Nico Muhly og Queen Tye í Akhnaten e. Philip Glass.
Þess má geta að Francesca da Rimini, Rusalka, Marnie og Akhnaten voru sýndar í beinni útsendingu
um allan heim í svokallaðri HD Live sýningu.
Dísella hefur m.a. komið fram sem einsöngvari í Carnegie Hall í New York og í Disney Hall í Los
Angeles. Þá hefur hún einnig komið fram víða á tónlistarhátíðum í USA.
Dísella þreytti einnig nýverið frumraun sína á sviði í Evrópu (utan Íslands) þegar hún fór með hlutverk
Lulu í samnefndri óperu eftir Alban Berg í óperunni í Róm á Ítalíu. Einnig söng hún titilhlutverk
óperunnar Proserpine e. Silviu Colasanti á Spoleto hátíðinni á Ítalíu '19, en þess má geta að það var
heimsfrumsýning þeirrar óperu.
http://www.disella.org/


BJARNI THOR KRISTINSSON er í hópi þeirra íslensku óperusöngvara sem náð hafa hvað lengst á
erlendri grund. Hann hóf söngnám við tónlistarskólann í Njarðvík hjá Ragnheiði Guðmundsdóttur og
stundaði það síðan með hléum áfram í Tónskóla Sigursveins og Söngskólanum í Reykjavík. Haustið
1994 hélt Bjarni til frekara náms við óperudeild Tónlistarháskólans í Vín og naut þar leiðsagnar
Helene Karusso og Curt Malm. Vorið 1997 var Bjarni síðan ráðinn sem aðalbassasöngvari
Þjóðaróperunnar þar í borg. Þar var hann fastráðinn til þriggja ára og að þeim tíma liðnum sneri hann
sér einungis að lausamennsku. Meðal helstu óperuhlutverka Bjarna má nefna: Barón Ochs í
Rósariddaranum, Osmin í Brottnáminu úr kvennabúrinu, Pímen í Boris Godunow, Rocco í Fidelio,
John Falstaff í Kátu konunum frá Windsor, van Bett í Zar und Zimmermann, að ógleymdum ýmsum
hlutverkum í óperum Wagners: Wotan í Rínargullinu, Pogner í Meistarasöngvurunum, Daland í
Hollendingnum fljúgandi, Hinrik konung í Lohengrin, Gurnemanz í Parsifal og risanum Fáfni í
Niflungahringnum. Eftir að Bjarni gerðist lausamaður í söng hefur hann verið fastur gestur í
Ríkisóperunni í Berlín auk þess að koma fram í óperuhúsum í Chicago, París, Feneyjum, Verona,
Flórenz, Palermo, Róm, Lissabon, Barcelona, Hamborg, Dresden, München, Wiesbaden, Karlsruhe og
Dortmund svo eitthvað sé nefnt. Bjarni söng hlutverk Osmin í Brottnáminu úr kvennabúrinu hjá
Íslensku óperunni haustið 2006 og fékk Grímuna, íslensku leiklistarverðlaunin, sem söngvari ársins
fyrir hlutverkið. Þá tók hann þátt í flutningi á verkinu Edda 1 eftir Jón Leifs með Sinfóníuhljómsveit
Íslands haustið 2006 og söng einnig með hljómsveitinni við opnun tónlistarhússins Hörpu.
Framundan eru verkefni í Köln, Kassel og Peking svo eitthvað sé nefnt.
Undanfarin ár hefur Bjarni Thor einnig leikstýrt nokkrum óperum og staðið fyrir tónleikaröð í Hörpu
undir heitinu Pearls of Icelandic song.

ANTONÍA HEVESI píanóleikari er fædd í Ungverjalandi og útskrifaðist úr F.Liszt- tónlistarakademíunni
í Búdapest með MA-gráðu í kórstjórn og sem framhaldsskólakennari í söng og hljómfræði. Einnig
stundaði hún orgelnám við Hochschule für Musik u.darstellende Kunst in Graz í Austurríki hjá Otto
Bruckner.

Hún hefur haldið fjölda tónleika sem orgelleikari og píanómeðleikari víðsvegar í Evrópu og Kanada.
Hún hefur tekið þátt í meistaranámskeiðum í píanóundirleik og söng og spilað inn á geisladiska.

Frá því í ágúst 2002 hefur Antonía verið listrænn stjórnandi og píanóleikari hádegistónleikaraðar
Hafnarborgar og hefur hún ennfremur komið fram á flestum hádegistónleikum Íslensku Óperunnar
frá árinu 2009. Hún var ein af stofnendum Óp-hópsins.

Á undanförnum árum hefur hún tekið þátt í uppfærslum á 35 óperum, með Norðurópi, Litla
Óperukompaníinu, ÓP- hópnum og hjá Íslensku Óperunni. Hún er virkur píanó-og orgelmeðleikari  í
íslensku tónlistarlífi og kemur reglulega fram á tónleikum með einsöngvurum, kammerhópum og
kórum.

Um Sönghátíð í Hafnarborg:
Sönghátíð í Hafnarborg fer fram dagana 2.-12.7.2020 undir nafninu Samkennd. Þemað er innblásið af
sérstöku mikilvægi samkenndar nú þegar faraldur geisar um heiminn og skekur líf fólks. Tónlist og
ljóðlist tjá sammannlegar tilfinningar þvert yfir tíma og lönd, hjálpa okkur að skilja okkur sjálf og að
setja okkur í spor annarra.
Sönghátíð í Hafnarborg er tónlistarhátíð sem hefur það að markmiði að koma klassískri sönglist á
framfæri. Á hátíðinni í ár eru átta tónleikar í boði með framúrskarandi söngvurum, sönghópum og
hljóðfæraleikurum sem flytja íslenska og erlenda tónlist frá endurreisnartímabilinu til okkar daga.
Meðal listamanna eru fjórir söngvarar sem sungið hafa í hinu fræga Metropolitan óperuhúsi. Einnig
er boðið upp á master class, söngnámskeið og tónlistarsmiðjur fyrir börn 6 mánaða – 12 ára.
Listrænir stjórnendur og stofnendur Sönghátíðar í Hafnarborg eru Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir
mezzósópran og Francisco Javier Jáuregui gítarleikari.
Á Sönghátíð í Hafnarborg er ekki einungis leitast við að leggja rækt við list augnabliksins, heldur er
einnig horft til framtíðar með því að birta á YouTube síðu hátíðarinnar valdar myndbandsupptökur af
tónleikum. Þar birtast einnig viðtöl sem Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir tekur við söngvara.
www.songhatid.is