Tix.is

Event info

Söngflokkurinn Hljómeyki flytur íslenskar kórperlur undir stjórn Þorvaldar Arnar Davíðssonar á Sönghátíð í Hafnarborg.

Tónleikarnir bera yfirskriftina Sólin heim úr suðri snýr eftir samnefndu lagi Sigursveins D. Kristinssonar, en á efnisskrá eru verk eftir mörg okkar þekktustu tónskáld m.a. Þorkel Sigurbjörnsson, Hafliða Hallgrímsson, Jón Nordal, Jórunni Viðar, Báru Grímsdóttur, Huga Guðmundsson, Snorra Sigfús Birgisson, Hildigunni Rúnarsdóttur og Emil Thoroddsen.

Í samræmi við sóttvarnarlög og til að tryggja öryggi tónleikagesta verður takmarkað sætaframboð á tónleikana. Ef tónleikagestur óskar þess að tryggja tveggja metra regluna skal taka það tímanlega fram, með því að senda póst á netfangið hafnarborg@hafnarfjordur.is.

Efnisskrá:

Afmorsvísa - Snorri Sigfús Birgisson/Páll Vídalín
Sólin heim úr suðri snýr - Sigursveinn D. Kristinsson/Jónas Hallgrímsson
Lömbin skoppa hátt með hopp - Íslensk þjóðlög úts. Hildigunnur Rúnarsdóttir/Þjóðvísa
Sumarkveðja - Ingi T. Lárusson/Páll Ólafsson
Árþula - Hildigunnur Rúnarsdóttir/Þjóðvísa
48. Passíusálmur - Íslenskt þjóðlag úts. Smári Ólason/Hallgrímur Pétursson
121. Davíðssálmur - Þorkell Sigurbjörnsson/Biblíutexti
43. Davíðssálmur - Þorvaldur Örn Davíðsson/Biblíutexti

Hlé

Til þín Drottinn hnatta og heima - Þorkell Sigurbjörnsson/Páll Kolka
Englar hæstir, andar stærstir - Þorkell Sigurbjörnsson/Matthías Jochumsson
Eg vil lofa eina þá - Bára Grímsdóttir/Gamalt helgikvæði
Vökuró - Jórunn Viðar úts. Þorvaldur Örn Davíðsson/Jakobína Sigurðardóttir
Gleðin - Hildigunnur Rúnarsdóttir/Þorsteinn Valdimarsson
Mitt er ríkið - Emil Thoroddsen úts. Hugi Guðmundsson/Guðmundur Guðmundsson
Ég á það heima - Sigfús Einarsson/Hulda
Hver á sér fegra föðurland - Emil Thoroddsen/Hulda
Land míns föður - Þórarinn Guðmundsson/Jóhannes úr Kötlum
4 íslensk þjóðlög - úts. Hafliði Hallgrímsson
- Nú vil ég enn í nafni þínu/Hallgrímur Pétursson
- Hættu að gráta hringaná/Jónas Hallgrímsson
- Sof þú blíðust/Þjóðvísa
- Veröld fláa/Rósa Guðmundsdóttir

Hljómeyki:

Aðalheiður Ólafsdóttir
Alda Úlfarsdóttir
Björn Bjarnsteinsson
Björn Hjaltason
Brynhildur Auðbjargardóttir
Egill Gunnarsson
Finnur Jónsson
Freyja Jónsdóttir
Gerður Guðmundsdóttir
Gunnlaugur Bjarnason
Helga Magnúsdóttir
Hildigunnur Rúnarsdóttir
Hjörtur Þorbjörnsson
Ingólfur Jóhannesson
Oddur Smári Rafnsson
Pétur Húni Björnsson
Skúli Hakim Mechiat
Svanhildur Óskarsdóttir
Úlfur Sveinbjarnarson
Valgerður G. Halldórsdóttir
Þorbjörn Rúnarsson

Stjórnandi: Þorvaldur Örn Davíðsson


Sönghópurinn Hljómeyki hélt sína fyrstu tónleika í Norræna húsinu 23. mars árið 1974. Hljómeyki skipaði sér þegar í fremstu röð íslenskra kóra og hefur á þeim áratugum sem liðnir eru flutt ógrynni verka af margvíslegu tagi — allt frá fjölradda kórmúsík endurreisnarinnar til íslenskrar rokktónlistar samtímans. Fyrstu árin starfaði hópurinn undir stjórn Rutar L. Magnússon og flutti þá aðallega veraldlega tónlist frá ýmsum löndum. Árið 1986 tók kórinn upp samvinnu við Sumartónleika í Skálholti og hefur síðan lagt mikla áherslu á flutning nýrrar íslenskrar tónlistar. Í Skálholti hefur Hljómeyki frumflutt tugi verka eftir mörg helstu tónskáld landsins og kórinn tekur iðulega þátt í öðrum hátíðum sem helgaðar eru nýrri tónlist, svo sem Myrkum músíkdögum og Norrænum músíkdögum.

Á ferli sínum hefur Hljómeyki nokkrum sinnum tekið þátt í óperuflutningi og má þar nefna Dídó og Eneas eftir Purcell, Orfeus og Evridísi eftir Gluck, Orfeo eftir Monteverdi, La Clemenza di Tito eftir Mozart, Carmen eftir Bizet og Porgy og Bess eftir Gershwin. Síðastnefndu verkin söng kórinn með Sinfóníuhljómsveit Íslands en Hljómeyki hefur komið reglulega fram með hljómsveitinni á undanförnum árum, síðast í flutningi sveitarinnar á Hringadróttinssinfóníu Howards Shore. Þá hefur Hljómeyki komið fram með hljómsveitunum Todmobile, Sólstöfum, Skálmöld og Dúndurfréttum ásamt því að vera í reglulegu samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands.
Hljómeyki hefur gefið út sex geisladiska, með verkum eftir Hjálmar H. Ragnarsson, Þorkel Sigurbjörnsson, Báru Grímsdóttur, Jón Nordal og Sigurð Sævarsson. Í fyrrasumar gaf kórinn út á Spotify úrval íslenskra kórperlna undir nafninu Sumarkveðja og í október kom út tónlist við heimildamyndina Gósenlandið, einnig á Spotify. Hljómeyki hefur einnig flutt stór rússnesk verk meðal annars Náttsöngva Rakhmaninovs, Kórkonsert Schnittkes, Púskinsveig eftir Sviridov og nú síðast stórvirkið Path of Miracles eftir Joby Talbot. Stjórnandi Hljómeykis er Þorvaldur Örn Davíðsson.


Um Sönghátíð í Hafnarborg:

Sönghátíð í Hafnarborg fer fram dagana 2.-12.7.2020 undir nafninu Samkennd. Þemað er innblásið af sérstöku mikilvægi samkenndar nú þegar faraldur geisar um heiminn og skekur líf fólks. Tónlist og ljóðlist tjá sammannlegar tilfinningar þvert yfir tíma og lönd, hjálpa okkur að skilja okkur sjálf og að setja okkur í spor annarra.

Sönghátíð í Hafnarborg er tónlistarhátíð sem hefur það að markmiði að koma klassískri sönglist á framfæri. Á hátíðinni í ár eru átta tónleikar í boði með framúrskarandi söngvurum, sönghópum og hljóðfæraleikurum sem flytja íslenska og erlenda tónlist frá endurreisnartímabilinu til okkar daga. Meðal listamanna eru fjórir söngvarar sem sungið hafa í hinu fræga Metropolitan óperuhúsi. Einnig er boðið upp á master class, söngnámskeið og tónlistarsmiðjur fyrir börn 6 mánaða – 12 ára. Listrænir stjórnendur og stofnendur Sönghátíðar í Hafnarborg eru Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzósópran og Francisco Javier Jáuregui gítarleikari.

Á Sönghátíð í Hafnarborg er ekki einungis leitast við að leggja rækt við list augnabliksins, heldur er einnig horft til framtíðar með því að birta á YouTube síðu hátíðarinnar valdar myndbandsupptökur af tónleikum. Þar birtast einnig viðtöl sem Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir tekur við söngvara.

www.songhatid.is