Skip to content

Tix.is

Harpa

  • 12. ágúst 2025 kl. 20:00

Miðaverð:4.500 kr.

Um viðburðinn

Látum fljóðin heyra hljóð, hlýnar blóðið freðna, orti Sigurður Breiðfjörð í einum af sínum mansöngvum en þeir mansöngvar sem hér um ræðir hafa ekkert með rímnakveðskap að gera heldur vísa til elstu merkingar orðsins mansöngur: ástarljóð ort til konu.

Tónleikarnir eru haldnir í tilefni af útgáfu á tvöfaldri plötu Jóns Halls Stefánssonar sem heitir einmitt Mansöngvar. Á plötunni eru 22 lög, allt ástarlög í einhverjum skilningi þótt öll væmni sé víðs fjarri, raunar er tregafullur strengur gegnumgangandi í þessari tónlist. Einsog í öllum bestu ástarlögunum, ekki satt?

Jón Hallur Stefánsson hefur lagt stund á lagasmíðar og textagerð frá unga aldri, hann semur melódísk, oft dapurleg en launfyndin og stundum ögn sérviskuleg popplög sem hafa komið út á ýmsu formi gegnum árin.

Mannsöngvar kemur út 8. ágúst á tvöföldum vínyl og samtímis á streymisveitum.

Því skal blásið til útgáfutónleika. Auk Jóns Halls, sem spilar á píanó og syngur, koma fram á tónleikunum Hermann Stefánsson, sem leikur á gítar og fleiri hljóðfæri, Bragi Ólafsson sem þenur bassa og Ólafur Björn Ólafsson sem ber húðir og málmgjöll. Gestasöngkona er Sólveig Alda Halldórsdóttir.

Við óskum ykkur ánægjulegrar kvöldstundar. Hlýni blóðið freðna.